Samtals hefur nú 41 látist af völdum Wuhan-veirunnar svokölluðu, nýs afbrigðis af kórónaveirunni. Tilkynnt var um 15 andlát til viðbótar við þau 26 sem þegar höfðu verið skráð í Hubei-héraði í Kína í dag, þar sem veiran á upptök sín.
Heilbrigðisyfirvöld í Kína hafa átt í erfiðleikum með að hefta útbreiðslu veirunnar vegna nýársfögnuðar Kínverja sem nú stendur yfir – með tilheyrandi ferðalögum. Kínverjar fagna nýju ári í dag, 25. janúar 2020.
Í frétt BBC segir að staðfest hafi verið 1200 tilfelli af Wuhan-veirunni í Kína. Veiran hefur einnig greinst í Evrópu en þrjú smit hafa verið staðfest í Frakklandi. Grunur var um að veiran hefði greinst í Finnlandi en það reyndist ekki rétt. Þá hafa tveir greinst í Bandaríkjunum og fyrsta smitið í Ástralíu hefur einnig verið staðfest.
Þá rannsaka yfirvöld í Bretlandi nokkur tilfelli þar sem grunur leikur á að um smit sé að ræða, auk þess sem reynt er að rekja ferðir um tvö þúsund manns sem komið hafa til Bretlands frá Hubei-héraði á síðustu vikum.
Kínverjar hafa gripið til víðtækra ráðstafana vegna Wuhan-veirunnar. Borginni Wuhan, þar sem veiran á upptök sín, hefur verið lokað og allar samgöngur til, frá og í borginni liggja niðri. Nýr spítali rís nú í borginni fyrir sjúklinga en BBC hefur eftir kínverskum miðlum að hann gæti verið tilbúin innan sex daga.
Á Íslandi hefur einnig verið gripið til ráðstafana. Byrjað er að starfa eftir viðbragðsáætlun á Keflavíkurflugvelli, auk þess sem allar heilbrigðisstofnanir landsins hafa verið hvattar til að uppfæra viðbragðsáætlanir sínar. Þá hefur Ferðamálastofa verið virkjuð til að koma upplýsingum til ferðamanna á framfæri.