Alexander Petersson er að fara að spila sinn fyrsta leik á stórmóti í fjögur ár og hann getur ekki beðið eftir því að spila.
„Mér líður mjög vel og spenntur að komast aftur á stórmót. Fá bolta og skora,“ sagði hinn 39 ára gamli Alexander en það skín hreinlega af honum gleðin í Malmö.
„Ég er búinn að hlakka svo mikið til og æfa vel. Það er gaman að hitta alla strákana. Gamla og unga.“
Besta handboltalið heims bíður strákanna okkar í kvöld fyrir framan um 10 þúsund Dani. Það verður alvöru verkefni.
„Það verður mjög gaman. Gerist ekki betra en að byrja á móti Danmörku. Það er óvíst hvað við gerum á mótinu. Það getur allt gerst.“
