Selfyssingurinn Janus Daði Smárason fékk ágætan spiltíma gegn Dönum og gæti fengið enn meira að gera gegn Rússum í kvöld.
„Líkaminn var fínn eftir Danaleikinn en það fór mikil orka í þennan leik, ekki síst andleg. Það var gott að leggjast á koddann,“ sagði Janus Daði á blaðamannafundi HSÍ í gær.
Það gladdi Selfyssinginn að heyra lagið Draumaland með Sælunni fyrir leik enda er það lag um Selfoss. Það kom Janusi heldur betur í gírinn.
„Aldrei verið jafn gíraður og þegar þetta lag kom á fóninn. Þetta kom skemmtilega á óvart. Ég bjóst ekki við því. Mér fannst ég vera peppaður fyrir en þetta gerði mikið fyrir mig. Að sjálfsögðu söng ég með,“ sagði Selfyssingurinn léttur en lagið mun örugglega hljóma aftur fyrir leikinn í kvöld. Honum til mikillar gleði.
Rússarnir bíða eftir strákunum okkar í kvöld og Janus er klár í þann slag.
„Þetta er aðeins hægari bolti hjá þeim en maður getur verið fljótur að gleyma sér og þeir refsa með hæfileikaríka menn. Það verður 60 mínútna vinna því þeir eru seigir. Geta spilað í 90 sekúndur en skorað samt.“