Frammistaða dönsku stuðningsmannanna í leiknum gegn Ungverjalandi var gagnrýnd eftir leikinn af dönskum handboltasérfræðingi og nú tekur formaður stuðningsmannafélagsins undir.
Daniel Svensson, einn sérfræðinga TV 2 SPORT á mótinu, gagnrýndi þá sjö þúsund dönsku stuðningsmenn sem voru mættir á leikinn gegn Ungverjum.
Hann segir að það hafi ekki verið nægilega mikil stemning á pöllunum og einungis síðustu tvær mínúturnar hafi stuðningsmennirnir sett pressu á andstæðingana.
'Op af sædet og fuld skrue' - fanformand med klar appel til danske tilskuere Indsatsen fra de danske tilskuere til EM-kampen mod Ungarn er blevet kritiseret af ekspert. Danske fanformænd er enige. https://t.co/4rkrybUn51
— SportenDK (@SportenDK) January 15, 2020
Formaður stuðningsmannafélags Dana, Fans to Figther, Sally O. Jacobsen tók undir orð Svensson.
„Þetta var ekki nægilega gott. Við óskum eftir því að leikmennirnir leggi sig 100% fram en hvað leggjum við sjálf á okkur? Þegar þeir detta niður eigum við að standa upp,“ sagði Sally og hélt áfram.
„Annars skiptir þetta engu máli. Þá getum við alveg eins setið bara heima fyrir framan sjónvarpið. Margir danskir stuðningsmenn haga sér eins og þeir sitja við kaffiborðið og séu hræddir um að missa bollann.“
Annette Hansen, formaður HHF stuðningsmannasveitarinnar, er sammála Sally og hrósar íslensku stuðningsmönnunum.
„Þeir lögðu sig alla fram, annað en við dönsku stuðningsmennirnir,“ sagði hún.
Það verður allt undir hjá Dönum í kvöld en vel verður fylgst með leikjunum í E-riðlinum á Vísi í dag.