Handbolti

Fjórir lykilmenn Svía fengu sér í tána í leyfisleysi

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Jim Gottfridsson, fyrirliði Svía, var einn þeirra sem fékk sér í glas í leyfisleysi í gær.
Jim Gottfridsson, fyrirliði Svía, var einn þeirra sem fékk sér í glas í leyfisleysi í gær. vísir/epa

Fjórir lykilmenn sænska karlalandsliðsins í handbolta fengu sér í tána í leyfisleysi í gærkvöldi.

Sport Bladet greinir frá því að Jim Gottfridsson, Andreas Nilsson, Lukas Nilsson og Kim Ekdahl du Rietz hafi farið á krá í Malmö í gærkvöldi og drukkið áfengi án leyfis þjálfarateymis sænska liðsins.

Kristján Andrésson, þjálfari Svía, var ekki sáttur með fjórmenningana.

„Ég er vonsvikinn með það sem gerðist en leikmennirnir báðust afsökunar fyrir framan allan hópinn og sögðu að þetta myndi ekki gerast aftur,“ sagði Kristján.

Sænska liðið átti frá á EM í gær og fyrradag og leikmennirnir fjórir nýttu sér það til að fá sér í glas. Samkvæmt frétt Sport Bladet þurfa leikmenn að fá leyfi þjálfarateymisins fyrir því að drekka áfengi á stórmótum.

Í fréttinni kemur fram að leikmönnunum hafi ekkert verið refsað en þeir báðu samherja sína afsökunar eins og áður sagði.

Eftir EM ætlar sænska handknattleikssambandið að skoða hvort setja þurfi skýrari reglur um mál sem þessi.

Svíþjóð er í milliriðli II á EM líkt og Ísland. Liðin mætast í lokaumferð milliriðlakeppninnar miðvikudaginn 22. janúar.

Kristján Andrésson hefur stýrt sænska karlalandsliðinu í handbolta síðan 2016.vísir/epa



Fleiri fréttir

Sjá meira


×