Donald „Cowboy“ Cerrone segir að hann og Conor McGregor geti skemmt sér almennilega í búrinu þann 18. janúar því þeir séu að mætast í þyngdarflokki sem þarfnist ekki mikils niðurskurðar.
Conor hefur verið UFC-meistari í báðum þyngdarflokkum fyrir neðan veltivigtina en virðist hafa augastað á beltinu í veltivigtinni. Hann bað því um að þessi bardagi yrði í veltivigt.
„Að vera í erfiðum niðurskurði á það til að skemma bardagavikuna en þetta verður ekkert mál. Nú getum við bara farið inn og skemmt okkur. Takk, Conor,“ sagði Cerrone kátur.
Cerrone var í veltivigt en færði sig niður í léttvigtina. Hann átti von á því að bardaginn yrði í þeim flokki þar til hann fékk skilaboð frá Íranum.
„Hann átti þessa hugmynd og ég var meira en til. Þyngdarflokkurinn skiptir mig ekki höfuðmáli þó svo þetta sé betra. Ég er í réttri þyngd og borða það sem ég vil. Hann vildi líklega vera í veltivigt svo hann gæti notið jólanna almennilega með fjölskyldunni. Koma svo og skemmta sér með mér. Ég skil það fullkomlega.“

