Síðdegis á morgun er spáð vestan- og norðvestanhvelli austan Öræfajökuls og í Suðursveit. Miklir byljir verða af fjöllum og hviður gæti orðið allt að 40-50 m/s, að því er fram kemur í ábendingu frá veðurfræðingi Vegagerðarinnar.
Búist er við því að ofsaveðrið standi yfir frá um klukkan þrjú síðdegis á morgun og fram á kvöld. Þá muni jafnframt hvessa í Mýrdal um miðjan dag en þar verði þó minni sviptivindar.
#Veður: Síðdegis er spáð V- og NV-hvelli austan Öræfajökuls og í Suðursveit. Miklir byljir af fjöllum og hviður allt að 40-50 m/s. Stendur frá um kl. 15 til 20. Eins hvessir í Mýrdal um miðjan dag, en minni sviptivindar þar. #færðin
— Vegagerðin | Iceland Roads (@Vegagerdin) January 6, 2020
Veðurstofa Íslands varar vegfarendur á svæðinu einnig við veðrinu síðdegis og í kvöld. Gular stormviðvaranir taka gildi á Austfjörðum og Suðausturlandi eftir hádegi. Þá er þegar farið að gæta úrkomu víða á landinu, ýmist rigningar eða snjókomu.
Vind lægir ekki fyrr en í kvöld þegar hann snýr sér til austurs og næsta lægð tekur að stýra veðrinu á landinu. Á morgun má búast við hvassri austanátt með rigningu eða slyddu. Svo snýst í hvassa suðvestanátt síðdegis með talsverðum éljagangi og kólnandi veðri.