Fjölmennt lið viðbragðsaðila var kallað út á tólfta tímanum í dag vegna tveggja manna í sjónum við Hrakhólma rétt utan við Álftanes. Þegar viðbragðsaðilar komu á staðinn var annar maðurinn uppi á skeri við Hrakhólma en hinn hafði rekið burt. Hann fannst fljótt og eru báðir mennirnir nú komnir heilu og höldnu í hendur sjúkraflutningamanna.
Fyrsta tilkynning um málið benti til þess að einn maður væri í sjónum en þeir reyndust tveir, líkt og áður segir. Ekki er ljóst hvort mennirnir voru á báti, kajak eða á sundi.
Líkt og áður segir var fjölmennt lið björgunarsveita, slökkviliðs og lögreglu kallað út vegna málsins. Meirihluti liðsins var þó afturkallað þegar í ljós kom að staðan var ekki jafnalvarleg og talin var í fyrstu.