Engir áhorfendur verða á leikjum kvöldsins í sextán liða úrslitum Mjólkurbikars karla. Sjö leikir eru á dagskránni í kvöld. Þetta kemur fram á Twitter-síðum Víkings og KA.
Í ljósi aðstæðna hefur verið tekin sú ákvörðun að leikir í 16. liða úrslitum Mjólkurbikarsins fari fram án áhorfenda.
— Víkingur FC (@vikingurfc) July 30, 2020
Við biðjum alla stuðningsmenn um að sýna þessu skilning.
Leikur Víkings og Stjörnunnar verður sýndur beint á Stöð 2 Sport og hefst klukkan 20:00.
Athugið að vegna Covid-19 stöðunnar verða áhorfendur ekki leyfðir á leik KA og ÍBV í dag kl. 17:30.
— KA (@KAakureyri) July 30, 2020
Minnum á að leikurinn verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport og því ekkert mál að fylgjast með gangi mála #LifiFyrirKA @mjolkurbikarinn pic.twitter.com/RAifJ7cW5y
Á blaðamannafundi ríkisstjórnarinnar og sóttvarnayfirvalda í dag beindi Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn, því til íþróttahreyfingarinnar að öllum kappleikjum fullorðinna yrði frestað um viku. Er þar átt við kappleiki iðkenda sem eru fæddir árið 2000 eða fyrr.
Hertari aðgerðir vegna kórónufaraldursins taka gildi á hádegi á morgun. Þá verða fjöldatakmörk m.a. lækkuð úr 500 manns í 100 manns og tveggja metra reglan verður ekki lengur valkvæð.
Þrír leikir verða sýndir beint á Stöð 2 Sport í kvöld; leikir KA og ÍBV, FH og Þórs og Víkings og Stjörnunnar.
Leikur Vals og ÍA á Origo-vellinum átti að fara fram annað kvöld. Ekki liggur enn fyrir hvenær hann verður.
Leikir kvöldsins í Mjólkurbikar karla
- Kl. 17:45 KA - ÍBV (beint á Stöð 2 Sport 3)
- Kl. 18:00 FH - Þór (beint á Stöð 2 Sport)
- Kl. 19:15 Breiðablik - Grótta
- Kl. 19:15 KR - Fjölnir
- Kl. 19:15 Fram - Fylkir
- Kl. 19:15 HK - Afturelding
- Kl. 20:00 Víkingur - Stjarnan (beint á Stöð 2 Sport)