Yfirvöld Suður-Kóreu hafa beðið einræðisstjórn Norður-Kóreu um að senda ekki um tólf milljónir áróðursbæklinga yfir landamærin, eins og til stendur að gera. Í norðri er unnið að undirbúningi þess að senda bæklingana með um þrjú þúsund blöðrum yfir landamærin. Á að gera það í hefndarskyni fyrir það að hópur fólks sem hefur flúið frá Norður-Kóreu og aðrir aðgerðasinnar hafa lengi sent áróðursbæklinga gegn einræðisstjórninni norður yfir landamærin með blöðrum.
Ekki liggur fyrir hvenær Norður-Kórea ætlar að senda sínar blöðrur á loft en samkvæmt Yonhap fréttaveitunni telja sérfræðingar að það verði gert í tengslum við 70 ára afmæli Kóreustríðsins á fimmtudaginn.
Veðrið er þó ekki þeim í hag og er talið mögulegt að Norður-Kórea gæti beitt drónum til að dreifa bæklingunum, sem myndi án efa valda miklu fjaðrafoki í Seoul, höfuðborg Suður-Kóreu.
Ríkin tvö komust að samkomulagi árið 2018 um að hætta þessum sendingum bæklinga og hafa yfirvöld Norður-Kóreu brugðist reið við því að ríkisstjórn Suður-Kóreu hefur ekki tekist að stöðva áðurnefndan hóp aðgerðasinna undanfarin ár.
Nú stendur til að senda um milljón bæklinga norður en ríkisstjórn Suður-Kóreu hefur heitið því að stöðva það.
Mikil spenna er á svæðinu og hefur hún aukist til muna á undanförnum tveimur vikum. Meðal annars hafa yfirvöld Norður-Kóreu sprengt samvinnustofnun ríkjanna á landamærunum í loft upp og hætt beinum samskiptum við nágranna sína í suðri. Stofnun þessi var opnuð árið 2018, eftir fund Kim Jong Un, einræðisherra Norður-Kóreu, og Moon Jae In, forseta Suður-Kóreu.
Eftir þann fund var einnig ákveðið að fjarlægja hermenn frá landamærum ríkjanna en Norður-Kórea hefur heitið því að manna eftirlitsstöðvar á nýjan leik og hefja heræfingar á landamærunum aftur. Það hefur ekki gerst enn en verið er að senda smáa hópa hermanna að landamærunum þar sem þeir hafa verið að vinna einhverja viðhaldsvinnu.