Erlent

Þrír látnir eftir hnífs­tungu­á­rás í al­mennings­garði

Sylvía Hall skrifar
25 ára maður var handtekinn á vettvangi.
25 ára maður var handtekinn á vettvangi. Vísir/getty

25 ára karlmaður hefur verið handtekinn grunaður um að hafa banað þremur í hnífstunguárás í Forbury Gardens í bænum Reading í Englandi. Þrír eru látnir og þrír eru alvarlega slasaðir eftir árásina.

Árásin átti sér stað um sjöleytið í gærkvöld að staðartíma. Árásarmaðurinn stakk nokkra sem voru staddir í garðinum og lýsir sjónarvottur því hvernig maðurinn gekk á milli hópa í garðinum og reyndi að stinga fólk.

Maðurinn sem var handtekinn á vettvangi en samkvæmt heimildarmönnum BBC er um líbanskan mann að ræða sem hefur áður setið í fangelsi í Englandi fyrir minniháttarbrot. Málið er ekki rannsakað sem hryðjuverk.

Frá vettvangi.Vísir/Getty

Lögregla segist ekki leita annarra í tengslum við árásina en rannsaka nú hvað lá að baki henni. Þá hefur lögregla hvatt fólk sem kann að eiga myndbandsupptökur af árásinni að setja sig í samband við sig en deila þeim ekki á samfélagsmiðlum í virðingarskyni við fjölskyldur fórnarlambanna.

Priti Patel, innanríkisráðherra Bretlands, hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem hún segir árásina hræðilega. Fólk hafi verið að njóta laugardagskvöldsins í garðinum með vinum og ættingjum og árásin sé með öllu óskiljanleg.

Boris Johnson forsætisráðherra tók í sama streng á Twitter-síðu sinni í gær. Þakkaði hann jafnframt viðbragðsaðilum á vettvangi fyrir sín störf.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×