Fulltrúar Starfsmannafélags Garðabæjar og launanefndar sveitarfélaganna skrifuðu undir rafrænan kjarasamning í dag. Rafræn atkvæðagreiðsla um samninginn hefst strax í kvöld en hann er sagður sambærilegur við kjarasamninga sem önnur sveitarfélög hafa gert við starfsmenn sína.
Í tilkynningu frá Starfsmannafélagi Garðabæjar kemur fram að kjarasamningurinn hafi verið samþykktur með fyrirvara um samþykki félagsmanna í atkvæðagreiðslu. Henni á að ljúka á hádegi á miðvikudag 22. apríl.
Flestir starfsmenn Garðabæjar eru félagsmenn í Starfsmannafélaginu fyrir utan kennara og marga háskólamenntaða starfsmenn.