Josie Harris, barnsmóðir Floyds Mayweather, fannst látin á heimili sínu í Los Angeles í gær. TMZ greindi fyrst frá.
Lögreglumenn voru kallaðir að heimili Harris í gærkvöldi. Þeir fundu hana í bíl sínum þar sem hún sýndi engin viðbrögð. Hún var úrskurðuð látin á staðnum.
Ekki er talið að dauða Harris hafi borið að með saknæmum hætti. Hún var fertug þegar hún lést.
Harris og Mayweather voru í sambandi á árunum 1995-2010 og áttu þrjú börn saman.
Mayweather beitti hana ítrekað ofbeldi og sat inni í tvo mánuði vegna heimilisofbeldis. Hann var dæmdur fyrir að ráðast á Harris á heimili hennar í Las Vegas 2010.
Hann sló hana, snéri upp á hönd hennar og hótaði henni lífláti. Sonur þeirra varð vitni að árásinni og lét lögregluna vita.