Erlent

Ghani og Abdullah ná loks sam­komu­lagi um að deila völdum

Atli Ísleifsson skrifar
Abdullah Abdullah og Ashraf Ghani við undirritun samkomulagsins fyrr í dag. 
Abdullah Abdullah og Ashraf Ghani við undirritun samkomulagsins fyrr í dag.  AP

Ashraf Ghani, forseti Afganistans, og pólitískur andstæðingur hans, Abdullah Abdullah, hafa náð samkomulagi um að deila völdum í landinu. Pattstaða hefur verið í afgönskum stjórnmálum eftir forsetakosningarnar í landinu á síðasta ári.

„Við munum deila byrðunum sem mun létta á herðum okkar, ef guð lofar,“ sagði Ghani þegar þeir Abullah undirrituðu samkomulagið í dag. Sýnt var frá undirrituninni í beinni útsendingu í afgönsku sjónvarpi.

Þeir Ghani og Abdullah sögðust vonast til að samkomulagið muni leiða til vopnahlés og síðar varanlegs friðar í landinu.

Samkvæmt samkomulaginu mun Ghani áfram gegna embætti forseta landsins, en Abdullah mun hafa það hlutverk að leiða friðarviðræður við Talibana. Helmingur ráðherra verður úr flokki Ghani og hinn helmingurinn úr flokki Abdullah.

Fyrrverandi stríðsherrann og varaforsetinn Abdul Rashid Dostum, sem nú er á bandi Abdullah, verður yfirmaður afganska hersins.

Landskjörstjórn lýsti því yfir eftir kosningarnar í september síðastliðinn að Ghani hafi haft sigur, en Abdullah sagðist efast um niðurstöðurnar og lýsti sjálfur yfir sigri.

Abdullah og Ghani hafa lengi verið pólitískir andstæðingar, en þeir deildu völdum einnig á síðasta kjörtímabili.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×