Frjálsíþróttamaðurinn Jóhann Björn Sigurbjörnsson hefur lagt hlaupaskóna til hliðar um sinn eftir að hann greindist með eitlakrabbamein. Hóf hann lyfjameðferð vegna þessa í síðasta mánuði.
Jóhann Björn greindi frá þessu í viðtali við skagfirska fjölmiðilinn Feyki.
„Þetta er stórt verkefni sem ég þarf að takast á við og ætla ég að leggja mig allan fram við að klára það. Þar af leiðandi mun ég vera á hliðarlínunni við brautina í sumar, en við sjáumst þar síðar,“ segir Jóhann.
Jóhann er 25 ára gamall og hefur verið í fremstu röð í hlaupum hér á landi á undanförnum árum.
Jóhann, sem keppir fyrir UMSS, keppti fyrir hönd Íslands á Smáþjóðaleikunum í fyrra þar sem hann keppti í 100 og 200 metra hlaupi auk þess sem hann tók þátt í Evrópubikarnum með íslenska landsliðinu síðastliðið sumar og var hluti af boðhlaupssveit Íslands í 4x100 metra hlaupi.