Tæknirisarnir Apple og Google munu leiða saman hesta sína í því skyni að þróa hugbúnað sem lætur fólk vita ef það hefur verið nálægt einhverjum sem smitaður er af kórónuveirunni sem veldur Covid-19 sjúkdómnum. Hugbúnaðurinn myndi þannig auðvelda smitrakningu. Þetta kemur fram á vef BBC.
Notendur myndu njóta nafnleyndar og yrðu að leyfa notkun búnaðarins, verði hann að veruleika. Þannig myndi búnaðurinn fylgjast með því í gegnum Bluetooth-merki símans hvort notandi hefði verið nægilega nálægt smitbera til þess að vera í hættu á að hafa smitast af veirunni. Ef það þykir líklegt að viðkomandi sé smitaður fær hann tilkynningu í símann sinn.
To help public health officials slow the spread of #COVID19, Google & @Apple are working on a contact tracing approach designed with strong controls and protections for user privacy. @tim_cook and I are committed to working together on these efforts.https://t.co/T0j88YBcFu
— Sundar Pichai (@sundarpichai) April 10, 2020
Hugbúnaðurinn mun hvorki geyma GPS-upplýsingar um staðsetningu né aðrar persónulegar upplýsingar um notandann.
„Einkalíf, gegnsæi og samþykki eru það mikilvægasta í þessari vinnu og við hlökkum til að þróa þetta í samráði við áhugasama hagsmunaaðila,“ segir í sameiginlegri yfirlýsingu Apple og Google.
Þá segja fyrirtækin aldrei hafa verið mikilvægara að vinna saman til að leysa þetta vandamál sem kórónuveirufaraldurinn er. Með þessu væri hægt að sporna frekar gegn útbreiðslunni.
Contact tracing can help slow the spread of COVID-19 and can be done without compromising user privacy. We’re working with @sundarpichai & @Google to help health officials harness Bluetooth technology in a way that also respects transparency & consent. https://t.co/94XlbmaGZV
— Tim Cook (@tim_cook) April 10, 2020
Smitrakningarforritið Rakning C-19 var gert aðgengilegt hér á landi fyrir rúmlega viku síðan og hafa um 120 þúsund símtæki sótt smitrakningarforritið. Forritið sem um ræðir geymir þó ferðaupplýsingar fólks, ólíkt hugmyndum Apple og Google, í um tvær vikur og er þannig hægt að óska eftir aðgangi að staðsetningargögnum ef smit kemur upp.
Að sögn Ævars Pálma Pálmasonar, yfirmaður smitrakningateymisins, hefur forritið hjálpað mikið til við vinnu smitrakningateymisins. Í fyrradag hafði forritið verið notað til þess að rekja ferðir fjögurra einstaklinga.