Erlent

Austurríki býr sig undir að slaka á aðgerðum

Kjartan Kjartansson skrifar
Yfirvöld í Austurríki mælast nú til þess að fólk noti andlitsgrímur í verslunum. Byrjað verður að aflétta aðgerðum gegn faraldrinum þar í næstu viku.
Yfirvöld í Austurríki mælast nú til þess að fólk noti andlitsgrímur í verslunum. Byrjað verður að aflétta aðgerðum gegn faraldrinum þar í næstu viku. Vísir/EPA

Leyft verður að opna verslanir í Austurríki í næstu viku þegar byrjað verður að slaka á aðgerðum til að hefta útbreiðslu kórónuveirufaraldursins. Hægst hefur á útbreiðslunni í Austurríki og telja stjórnvöld nú tímabært að létta á samkomubanni þar.

Skólar, barir, veitingastaðir, leikhús og verslanir sem ekki teljast nauðsynlegar hafa verið lokaðar undanfarnar þrjár vikur. Landsmönnum hefur verið sagt að halda sig heima og vinna þar ef þeir mögulega geta.

Nú er svo komið að nýjum smitum fjölgar innan við 10% á dag og þá hefur álag á sjúkrahús jafnast út, að sögn Reuters-fréttastofunnar. Sebastian Kurz, kanslari, segir slakað verði á aðgerðunum í áföngum. Austurríki hafi brugðist við faraldrinum fyrr en mörg önnur ríki og sé því í aðstöðu til að slaka á aðgerðum fyrr en aðrir.

Gangi allt að óskum verði hægt að opna verslanir sem hafa ekki verið skilgreindar sem nauðsynlegar í rými sem er innan við 400 fermetrar 14. apríl. Í kjölfarið verður leyft að opna allar verslanir, verslunarmiðstöðvar og hárgreiðslustofur 1. maí.

Fólk verður beðið um að ganga með maska í verslunum og almenningssamgöngum. Kurz segir ennfremur að fjölgi smitum aftur verði ákvörðunin endurskoðuð og því frestað að slaka á aðgerðunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×