Jón Arnór Stefánsson segir að mögulega hefði Örlygur Aron Sturluson getað náð lengst allra íslenskra körfuboltamanna, hefði honum enst aldur til.
Jón lýsti því í Sportinu í kvöld í liðinni viku hverjir hefðu verið hans erfiðustu mótherjar á ferlinum. Jón nefndi Hlyn Bæringsson og Brenton Birmingham, sem og Loga Gunnarsson sem hann sagðist hafa kviðið því að mæta þegar þeir voru yngri. Liðsfélagi Loga í Njarðvík, Ölli, var Jóni ekki síður erfiður þegar þeir mættust í yngri flokkum:
„Þetta er hinn drengurinn sem ég kveið svolítið fyrir því að spila á móti. Ég dekkaði hann og hann dekkaði mig, og þarna var ég að spila upp fyrir mig. Hann poppaði strax upp í hugann núna, því mig langaði að fara alveg aftur í minniboltann, þegar ég var að byrja í þessu. Hann var svo mörgum hæðum fyrir ofan okkur hina, og virtist eiga svo auðvelt með þetta,“ sagði Jón við Rikka G.
„Hann var svo ofboðslega yfirvegaður á vellinum, ofboðslega þroskaður bæði líkamlega og hvernig hann spilaði. Ölli var rosalega erfiður í yngri flokkunum, og það var synd að fá ekki að keppa á móti honum í seinni tíð. Hann varð að vera á þessum lista,“ sagði jón, en Ölli lést í byrjun ársins 2000. Jón er ekki í vafa um að hann hefði getað náð langt í körfuboltanum:
„Hann hefði farið mjög langt. Hann hefði verið að spila í toppdeild í Evrópu hefðu spilin fallið þannig, og hefði mögulega getað farið lengst af okkur öllum. Ég held að það séu flestir sammála mér í því.“
Sportið í kvöld er á dagskrá Stöðvar 2 Sports á þriðjudags-, miðvikudags- og fimmtudagskvöldum klukkan 20.00. Upptökur af fyrri þáttum má nálgast á sjónvarpsvef Stöðvar 2. Stöð 2 Sport er hluti af Sportpakkanum.