Innlent

Fundu ellefu kíló af amfetamíni við húsleit

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Héraðsdómur Reykjavíkur
Héraðsdómur Reykjavíkur Vísir/Vilhelm

Þrír karlmenn hafa verið úrskurðaðir í gæsluvarðhald til 25. maí vegna umfangsmikils máls er snýr að skipulagðri brotastarfsemi. Lagt var hald á ellefu kíló af amfetamíni og búnað sem talinn er hafa verið notaður við framleiðslu efnisins.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu en þar segir að lögregla hafi lagt hald á amfetamínið við húsleit í fjölbýlishúsi á höfuðborgarsvæðinu.

Lögreglan hefur einnig tekið í sína vörslu töluvert af búnaði, sem talið er að hafi verið notað við framleiðsluna, og fjármuni, en nokkrar húsleitir hafa verið framkvæmdar vegna málsins. Söluvirði fíkniefnanna er talið vera um 70 milljónir króna.

Mennirnir voru úrskurðaðir í gæsluvarðhald í Héraðsdómi Reykjavíkur á grundvelli rannsóknarhagsmuna. Rannsókn málsins miðar vel, en ekki er hægt að veita frekari upplýsingar að svo stöddu, að því er segir í tilkynningu lögreglunnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×