Sandurinn rennur hratt úr tímaglasi Icelandair sem stefnir í gjaldþrot ef ekki verður gripið til róttækra aðgerða til bjargar fyrirtækinu. Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra mætir í Víglínuna til Heimis Más Péturssonar fréttamanns til að ræða mögulega aðkomu stjórnvalda að björgun fyrirtækisins, en það hefur m.a. sagt að semja þurfi um laun starfsmanna fyrir 22. maí.

Bjarni ræðir einnig um nýjustu aðgerðir stjórnvalda og áhif þeirra í heild á stöðu ríkissjóðs í framtíðinni og getu hans eða getuleysi til nýrra útgjalda á næstu árum.
Helga Vala Helgadóttir þingmaður Samfylkingarinnar og formaður velferðarnefndar verður einnig gestur Víglínunnar í dag. Hún er tilbúin með frumvarp sem girðir fyrir að fyrirtæki nýti að óþörfu aðgerðir ríkisstjórnarinnar og eins ef þau hafa tengsl við aflandsfyrirtæki.

Frumvarp dómsmálaráðherra um útlendinga verður einnig til umræðu en Helga Vala segir frumvarpið loka algerlega fyrir að tiltekinn hópur flóttamanna í neyð fái afgreiðslu sinna mála á Íslandi og verði sjálfkrafa sendir á brott.
Víglínan er í opinni dagskrá á Stöð 2 og á Vísi klukkan 17:40 og fer fer í framhaldinu inn á sjónvarpshluta Vísis.