Skoðun

Stöðvum spillinguna!

Hrefna Sigurjónsdóttir skrifar

Virðulegi forsætisráðherra og ríkisstjórn.

Hlutirnir gerast hratt í heiminum þessa dagana, á Íslandi sem annars staðar og brýnt er að við sem þjóð leggjumst öll á árarnar og róum í sömu átt. Sú samheldni sem skapaðist hér á landi á krísutímum farsóttar er einstök og dýrmæt og mikilvægt að viðhalda henni og hlúa að samtakamættinum. Stjórnvöld hafa það hlutverk og ábyrgð að leiða okkur í gegnum áskoranir sem þessar með aðstoð góðra sérfræðinga og kjósendur treysta því að stjórnvöld gæti hagsmuna borgaranna og ríkisins í hvívetna í þeim aðgerðum sem ráðist er í og girði fyrir misnotkun. Því skýtur það skökku við þegar við blasir að öflugir aðilar í okkar samfélagi eru ekki tilbúnir að róa í sömu átt og aðrir og virðist í raun sama þótt margir verði eftir úti á rúmsjó. Þannig upplifir almenningur í það minnsta nýliðna atburði.

Í Nýja-Sjálandi hafa stjórnmálamenn tekið á sig 20% launalækkun og fryst laun næsta hálfa árið til að sýna samstöðu með þjóðinni á erfiðum tímum. Í Danmörku og Póllandi var skýrt frá byrjun að fyrirtæki og félög í skattaskjólum fengju ekki ríkisaðstoð og sama gildir um Svíþjóð sem hnykkti einnig á reglum um að fyrirtæki sem greiddu út arð samhliða því að þiggja ríkisaðstoð yrðu að greiða það fé til baka og ættu ekki rétt á slíkri aðstoð. Óheppilegt er þegar ráðherrar og þingmenn hafa hagsmunatengsl við stöndug fyrirtæki í landinu sem nýtt hafa sér hlutabótaleið og æskilegt að þeir sem það hafa segi sig frá nefndum og starfshópum sem taka ákvarðanir er umrædd fyrirtæki varða.

Undirskriftarlistinn fór af stað fyrir tæpum tveimur sólarhringum, þegar þetta er ritað, og ljóst er að atburðarásin er hröð. Inntak hans hefur þó enn gildi og kemur inn á þá þætti sem hér hafa verið nefndir. Við sem undir áskorunina ritum biðlum til ríkisstjórnarinnar að standa betur vörð um almannahagsmuni.

Virðingarfyllst,

Hrefna Sigurjónsdóttir

Höfundur er framkvæmdastjóri.  Undirskriftarlistann STÖÐVUM SPILLINGUNA! er að finna á change.org.




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×