Kim Clijsters ætlar að snúa aftur á tennisvöllinn í mars, meira en sjö árum eftir að hún setti spaðann á hilluna í annað sinn.
Clijsters greindi frá því í gær, mánudag, að hún hefði þegið boð um að taka þátt á Monterrey Open mótinu sem haldið er í Mexíkó í byrjun mars.
Clijsters var efsta kona heimslistans um tíma og hefur hún unnið fjóra risatitla.
Hún greindi frá því í september að hún ætlaði að reyna að snúa aftur en varð fyrir meiðslum á hné í nóvember sem settu strik í áætlanir hennar.
Clijsters setti spaðann upphaflega á hilluna árið 2007, gifti sig og eignaðist sitt fyrsta barn. Hún snéri aftur tveimur árum síðar og vann tvo risatitla áður en hún hætti aftur árið 2012.
