Skoðun

Spilling, hvaða spilling?

Bolli Héðinsson skrifar

Þjóðþingið í landinu samþykkir að fram fari rannsókn á skattaundanskotum og framlögum úr ríkiskassanum til ákveðins þjóðfélagshóps. Fjármálaráðherrann lætur gera skýrslurnar en ákveður að stinga þeim undir stól þar sem þær gætu komið honum illa. Eitt af fyrstu verkum hans, eftir að hann settist í ráðherrastólinn var að lækka framlög til eftirlitsstofnana en hann sjálfur hafði verið vændur um að bjarga háum fjárhæðum fyrir sig og ættingja sína þegar hann bjó yfir upplýsingum í opinberu starfi sem hann gegndi áður en hann varð fjármálaráðherra.

Menn reknir úr starfi

Meðal atvinnurekenda í þessu landi er fyrirtæki sem lagði fæð á hvern þann sem ekki deildi skoðunum þess á hvernig ríkisvaldið ætti að gera þá sem ríkasta. Þeir sögðu grimmt upp fólki sem var ekki sammála þeim og settu sig í samband við forstöðumenn ríkisstofnana og annarra fyrirtækja auk innlenda og erlendra háskóla og kvörtuðu yfir að þar væru í vinnu einstaklingar sem væru á annarri skoðun en þeir. Einnig lögðu þeir sig fram við að fá uppgefin nöfn þeirra einstaklinga sem komu að málum í eftirlitsstofnununum, en það var einmitt þeira háttur, að hrella einstaklingana sem voru að rannsaka þá og freista þess að draga úr þeim móðinn. Einnig lokuðu þeir verksmiðju hjá sér um stundarsakir og létu það bitna á fólkinu í þorpinu þegar ein eftirlitsstofnunin tók þá til rannsóknar. Þess var alltaf gætt að einn nánasti vinur og samstarfsmaður forstjórans sæti í ríkisstjórn og helst að hann hefði málefni fyrirtækisins á sinni könnu. 

Enginn sagði neitt

Svona gekk þetta árum saman og allir sem vildu vita, vissu að svona væri málum komið, en samt gerði enginn neitt. Þvert á móti þá fengu stjórnmálamennirnir alltaf endurnýjað umboð frá kjósendum og fyrirtækið naut virðingar og hylli í samfélaginu.

Ofangreindur fjármálaráðherra telur að spilling sé bara í útlöndum og samtök atvinnurekenda í landinu telur sér sóma að því að hafa svona fyrirtæki innan sinna vébanda.  Hvaða land er þetta? Er þetta ekki bara svona hjá „frumstæðum“ og fjarlægum þjóðum?

Höfundur er hagfræðingur.




Skoðun

Sjá meira


×