Innlent

Vara­afls­­stöðvar teknar úr notkun eftir að tvö­faldar tengingar við raf­­orku­­kerfið komust á

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Á kortinu sést í hvaða bæjum og þorpum varaafl er til staðar og hvar ekki á Norðurlandi.
Á kortinu sést í hvaða bæjum og þorpum varaafl er til staðar og hvar ekki á Norðurlandi. vísir/hjalti

Pétur E. Þórðarson, aðstoðarforstjóri RARIK, segir að heildarvaraafl RARIK sé rétt rúm 30 megavött, ef með eru talin fjögur megavött sem eru í færanlegum varaflsstöðvum, en heildaraflið í forgangi inn á kerfið sé 200 megavött.

Það að vera með varaafl sé því undantekning á erfiðustu svæðum landsins en ekki regla.

Vegna óveðursins í liðinni viku máttu íbúar víða á Norðurlandi þola víðtækt og langvarandi rafmagnsleysi, meðal annars á Hvammstanga, í Ólafsfirði, á Sauðárkróki og Dalvík og í nærliggjandi sveitum, með tilheyrandi sambandsleysi við umheiminn og jafnvel miklum kulda í húsum.

Bæði íbúar og sveitarstjórnarfólk á Norðurlandi hafa gagnrýnt að nauðsynlegir innviðir á borð við raforkukerfi og fjarskiptakerfi hafi brugðist í óveðrinu. Slíkt sé með öllu óboðlegt á 21. öldinni.

Þá hefur skortur á varaafli fyrir norðan einnig sætt mikilli gagnrýni, ekki hvað síst einmitt vegna þess að fjarskiptakerfin reiða sig á rafmagnið og lágu þau því niðri tímunum saman.

Unnið að rafmagnsviðgerðum á Norðurlandi í liðinni viku.vísir/egill

Báðar tengingarnar brugðust

Fréttastofa sendi fyrirspurn til RARIK og spurði út í það hvar hafi áður verið varaflsstöðvar á Norðurlandi, hvers vegna þær væru þar ekki lengur og hvar þær væru enn.

Samkvæmt svari RARIK er varaafl til staðar í fæstum bæjum og þorpum á Norðurlandi vegna þess að í flestum þeirra er tvöföld tenging við raforkukerfið til staðar.

Pétur segir að þar sem tvöföld tenging sé fyrir hendi sé það almenna forsendan að önnur tenging geti þá tekið við ef truflun eða bilun verði í hinni tengingunni.

Það sem gerðist hins vegar í óveðrinu, til dæmis á Ólafsfirði og Siglufirði, var að tvöföldu tengingarnar brugðust báðar.

Dalvíkurlína fór mjög illa í óveðrinu og hafði það meðal annars áhrif á Siglufirði og Ólafsfirði.landsnet

Önnur Siglufjarðarvélin á Raufarhöfn og hin ónýt

Bæirnir eru tengdir við Dalvíkurlínu með jarðstrengjum um Ólafsfjarðarmúla og Héðinsfjarðargöng en í svari RARIK segir að Dalvíkurlína sé ein sterkasta línan á landsbyggðinni.

Engin truflun hafi orðið á henni í 36 ár þar til nú þegar um þrjátíu stæður brotnuðu á línunni. Segir Pétur að engan hafi grunað að Dalvíkurlína myndi gefa sig.

Á meðal þess sem brotnaði var línan til Ólafsfjarðar frá aðveitustöð við Dalvík. Við það fór rafmagn af Ólafsfirði sem er tengdur við Siglufjörð og Skeiðsfossvirkjun en truflanir urðu einnig í Skeiðsfossi og því misstu báðir bæirnir rafmagn.

„Truflunin var í framleiðslunni í Skeiðsfossvirkjun. Það er nefnilega líka ákveðin hætta þegar það gerir vitlaust veður að millistórar eða litlar virkjanir verða mjög gjarnan ógangfærar vegna skafrennings og snjókomu,“ segir Pétur.

Í kjölfar þess að Héðinsfjarðargöng voru tekin í notkun árið 2010, og þar með komin tvöföld tenging við raforkukerfið á Ólafsfirði og Siglufirði, voru varaaflsstöðvar bæjanna teknar úr notkun:

„Önnur Siglufjarðarvélin fór á Raufarhöfn sem nýtur aðeins einnar tengingar við landskerfið og hin var orðin gömul og órekstrarhæf. Ólafsfjarðarvélin var einnig orðin ónýt þegar hún var tekin úr rekstri,“ segir í svari RARIK.

Sauðárkrókur var án rafmagns í meira en sólarhring en þar er hvorki varaafl né tvöföld tenging við raforkukerfið.Vísir/JóiK

Hvorki varaafl né tvöföld tenging á Sauðárkróki

Hvað varðar Hvammstanga, þar sem rafmagnslaust var í meira en 40 klukkustundir, þá var þar varaaflsstöð á meðan bærinn var með eina tengingu frá Laxárvatnsvirkjun.

Eftir að tvöfaldri tengingu var hins vegar komið á fyrir um tíu árum, og varaaflsstöðin hafði ekki verið sett í gang í tíu ár, að því er fram kemur í svari RARIK, var vélin flutt til Víkur í Mýrdal. Sá bær er á einfaldri tengingu við landskerfið.

Um önnur þorp og bæi á Norðurlandi segir í svari RARIK:

Skagaströnd er með varaaflsstöð, en hefur fengið tvöfalda tengingu. Vélin er þar þó enn.

Blönduós er ekki með varaafl, enda er tvöföld tenging þangað.

Sauðárkrókur er ekki með varaafl, en þar hafa verið staðsettar færanlegar vélar og verða á meðan beðið er eftir tvöfaldri tengingu þangað. Verið er að byggja nýja yfirbyggða aðveitustöð og lagður verður háspennujarðstrengur þangað af Landsneti á næsta ári.

Hofsós var með færanlega vél um tíma, en er ekki lengur, enda með tvöfalda tengingu og allt nágrenni hans komið í jarðstrengi.

Dalvík er ekki og hefur ekki verið með varavélar, en þangað liggur ein sterkasta línan á landsbyggðinni. Engin truflun hefur orðið á þeirri línu í 36 ár, þar til nú. Þá er Dalvík einnig tengd við Ólafsfjörð og áfram til Siglufjarðar og Skeiðsfossvirkjunar og mögulegt að taka þaðan takmarkaða orku.

Grenivík var með varaafl þar til hún fékk tvöfalda tengingu frá Dalvík í gegnum Hauganes annars vegar og hins vegar um Svalbarðseyri til Akureyrar.

Húsavík hefur lengst af verið með takmarkað varaafl, þrátt fyrir að vera með eina tengingu frá Laxá, en hefur nú fengið tengimöguleika með annarri tengingu frá Bakka og jafnframt þriðja möguleikanum um dreifikerfið í Aðaldal. Þar er þó þörf á öflugri tengingu.

Kópasker er með mjög takmarkað varaafl, en þar er mjög gjarnan staðsett færanleg varavél eins og er í dag. Þar er í meginatriðum aðeins ein tenging frá Laxárvirkjun.

Raufarhöfn er með varavél, enda bara með eina tengingu við Landsnetið frá Kópaskeri.

Þórshöfn er með varavél, enda einnig bara með eina tengingu við Landsnetið frá Kópaskeri.

Þá er varaaflsstöð í Hrísey samkvæmt upplýsingum fréttastofu. Stöðin hefur verið í eynni allt síðan rafstrengur var lagður í land árið 1959 og oft verið nýtt í gegnum tíðina, sérstaklega árum áður þegar rafmagnstruflanir voru tíðari en nú er.

Ekki er tvöföld tenging í Hrísey en strengurinn sem sér eynni fyrir rafmagni liggur til Dalvíkur. Íbúar Hríseyjar misstu rafmagn þaðan snemma morguns á miðvikudag og síðan þá hefur verið keyrt á varaaflinu. 

Fréttin var uppfærð kl. 08:45 með upplýsingum um hvernig málum er háttað í Hrísey.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×