Southend United gerði 1-1 jafntefli við Burton Albion í ensku C-deildinni í kvöld.
Sol Campbell er knattspyrnustjóri Southend en honum til aðstoðar er Eyjamaðurinn Hermann Hreiðarsson.
Þeir félagar léku saman í vörn Portsmouth á árunum 2007-09 og urðu bikarmeistarar með liðinu 2008.
Campbell og Hermann tóku við Southend fyrir rúmum mánuði. Fyrir utan 3-1 sigur á Wimbledon í EFL-bikarnum hafði liðið tapað öllum leikjunum undir þeirra stjórn þar til kom að leiknum í kvöld.
Stephen McLaughlin kom Southend yfir á 21. mínútu. Burton jafnaði í 1-1 í upphafi seinni hálfleiks og þar við sat. Burton var manni færri síðustu 57 mínútur leiksins.
Southend er í 22. og næstneðsta sæti deildarinnar með sex stig, tíu stigum frá öruggu sæti.
