Innlent

Innbrotsþjófar á hlaupum í miðbænum

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Báðir þjófarnir hlupu á brott.
Báðir þjófarnir hlupu á brott. Vísir/vilhelm
Innbrotsþjófur, sem braust inn í heimili í miðbæ Reykjavíkur á sjöunda tímanum í gær, tók á rás út úr húsinu þegar hann varð var við íbúa. Í dagbók lögreglu segir að maðurinn hafi náð að taka einhverja muni með sér en að ekki sé vitað hverju var stolið.

Þá kom starfsmaður fyrirtækis í miðbænum að manni inni á skrifstofu fyrirtækisins, þar sem hann var í þann mund að stela fartölvu sem þar var. Þjófurinn náði að hlaupa út án tölvunnar. 

Seint í nótt var tilkynnt um innbrot í „tónlistarhús í hverfi 101“, líkt og það er orðað í dagbók lögreglu. Öryggisverðir höfðu þar orðið varir við manneskju á ferli. Um var að ræða heimilislausa konu sem sofnað hafði inni í húsinu og var komin á stjá. 

Í dagbók lögreglu segir að konan hafi sagst hafa farið inn í húsið í gærkvöldi en síðan sofnað. Þá hafi hún ætlað að koma sér út er lögregla kom á vettvang.

Þá var starfsmaður póstþjónustu að fara með sendingu í hús í Mosfellsbæ þegar hundur réðst að honum og beit hann. Maðurinn ætlaði að leita sér aðstoðar á slysadeild.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×