Eftirlitsnefnd Dómsmálaráðuneytis Bandaríkjanna úrskurðaði í dag að rannsókn bandarísku Alríkislögreglunnar, FBI, á tengslum forsetaframboðs Donalds Trumps og Rússlands hafi ekki stjórnast af pólitískri hlutdrægni. Frá þessu er greint á vef fréttastofu AP.
Donald Trump, Bandaríkjaforseti, hefur haldið því fram að Alríkislögreglan hafi verið á nornaveiðum þegar hún hóf rannsókn á tengslum forsetaframboðs Donalds Trumps og Rússlands. Skýrsla eftirlitsnefndarinnar var gefin út í dag og er öllum ásökunum Trumps og stuðningsmanna hans um hlutdrægni hafnað.

Þrátt fyrir það var greint frá því í skýrslunni að ekki hafi verið staðið nógu vel að rannsókninni og að ekki hafi verið gætt nógu vel að valdbraut innan stofnunarinnar hafi verið virt. Talið er líklegt að þessir vankantar verði notaðir af Repúblikönum sem styðja Trump í rannsókn fulltrúadeildarinnar á því hvort Trump hafi brotið af sér í starfi.
Þá kemur fram í skýrslunni að 17 brot hafi verið framin af FBI þegar sótt var um eftirlitsheimild hjá FISA dómstólnum til að fylgjast með samskiptum Carter Page, sem var ráðgjafi Trumps í framboðinu. Page hefur bæði búið og starfað í Rússlandi.
Þá hafi lögmaðurinn sem fór með umsjón rannsóknarinnar falsað tölvupóst frá leyniþjónustu Bandaríkjanna, CIA, í umsóknarferlinu, FBI starfsmenn hafi haldið upplýsingum leyndum í umsóknarferlinu og margt fleira.
Þrátt fyrir þetta kemur fram í skýrslunni að ekkert benti til þess að nokkur pólitísk hlutdrægni eða að rannsókninni hafi verið hrint af stað á röngum forsendum. Þá hafi mistök Alríkislögreglunnar ekki veið gerð af ásettu ráði.