Innlent

Stöðva þurfti báða ofna í kísilverinu á Bakka

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Stöðva þurfti báða ofnana í kísilverinu á Bakka.
Stöðva þurfti báða ofnana í kísilverinu á Bakka.
Starfsfólkið í kísilveri PCC á Bakka hefur undanfarna daga átt í vandræðum í framleiðslu þar sem stoðkerfi ofna hefur brugðist. Slökkva þurfti á tveimur ofnum vegna þessa. Þetta kemur fram í Facebookfærslu á síðu PCC BakkiSilicon.

Stöðva þurfti ofnana Birtu og Boga en í Boga varð framleiðslan óstöðug vegna ójafnvægis í kerfinu og þurfti því að slökkva á honum.

Þá þurfti að opna neyðarskorsteina til að koma í veg fyrir reyksöfnun og halda lofgæðum en þegar slökkt var á ofnunum hafði hitastigið í rykhreinsivirkinu lækkað og myndaðist þá raki sem varð til þess að kísilrykið varð klístrað og stíflaði kerfið. Þá hafi farið af stað mikil vinna til að þrífa kerfið í von um að losa allar stíflur áður en ofnarnir verða settir aftur í gang.

Búið er að ræsa annan ofninn á ný og gert er ráð fyrir að hinn verði endurræstur seinni partinn á morgun. „Núna er Birta komin á fullt afl og er að framleiða hágæða kísilmálm. Við gerum ráð fyrir að Bogi fari í gang seinni partinn á morgun.“

„Við biðjumst velvirðingar á þeim reyk sem að fylgir því að opna neyðarskorsteinana. Við munum lágmarka opnun neyðarskorsteinana eins og mögulegt er meðan unnið er að því að koma framleiðslunni á fullt afl.“


Tengdar fréttir

Annað slys í kísilveri PCC

Starfsmaður PCC-kísilversins á Bakka slasaðist í síðasta mánuði þegar hann fékk í sig skot úr byssu sem er notuð til að losa þrýsting úr bræðsluofnum verksmiðjunnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×