Þorsteinn Már Baldvinsson, fyrrverandi forstjóri Samherja, hefur sagt sig úr stjórn tveggja breskra sjávarútvegsfélaga, annars vegar Seagold og hins vegar UK Fisheries.
Frá þessu greinir norski miðillinn Intrafish sem sérhæfir sig í fréttum um sjávarútveg. Þar kemur fram að útgerðarfyrirtækið Samherji eigi helmingshlut í UK Fisheries á móti hollenska félaginu Parlevliet van der Plas.
Seagold er félag í eigu Samherja sem sér um markaðssetningu og sölu á vörum dótturfélags Samherja, Ice-Fresh Seafood, í Bretlandi en fyrr í dag greindi Undercurrent News frá því að breska verslunarkeðjan Sainsbury's sé hætt að kaupa frosinn fisk af umræddu dótturfélagi Samherja í Bretlandi.
Ákvörðunin er ekki sögð tengjast Samherjamálinu og en hún var tekin áður en málið kom upp, að því er fram kemur í fréttinni. Þar kemur einnig fram að tveir kínverskir framleiðendur hafi komið í stað Ice Fresh Seafood. Verslunarkeðjan fái nú þorsk, ýsu, ufsa og lax frá þeim.
Fyrr í mánuðinum greindi Þorsteinn Már frá því að hann ætlaði að stíga til hliðar tímabundið sem forstjóri Samherja en Björgólfur Jóhannsson tók við sem settur forstjóri útgerðarfyrirtækisins.
Áður hefur verið sagt frá því að breskir stórkaupendur á íslenskum fiski fylgist náið með Samherjamálinu. Þannig var sagt frá því í fréttum Stöðvar 2 fyrr í mánuðinum að talsmaður Marks & Spencer krefjist þess af birgjum sínum að þeir stundi viðskipti á siðferðislegan og löglegan hátt.

