Skólinn skrifaði nýlega undir starfssamning um innleiðingu nýrrar kennsluaðferðar í lestri ásamt fjórum öðrum grunnskólum hverfisins, Ölduselsskóla, Fellaskóla, Seljaskóla og Breiðholtsskóla. Aðferðin, PALS, hentar að sögn Lovísu Guðrúnar vel í kennslu fjölbreyttra nemendahópa.
„Nemendur vinna saman í pörum og eru paraðir saman út frá lestrarfærni þannig að allir fá lesefni við hæfi sem er lykilforsenda þess að árangur náist,“ segir Lovísa.
„Nemendur vinna tveir og tveir saman eftir fyrirfram ákveðnu ferli. PALS-aðferðin eða Pör að læra saman, einkennist af skýrri uppbyggingu kennslustunda þar sem áhersla er á virkni nemenda allan tímann,“ segir hún og bætir við að aðferðin geti veitt nemendum öryggi því hún felur í sér að börnin viti hvernig kennslustundin er uppbyggð.

Kennslan fer þannig fram að þeir nemendur sem paraðir eru saman lesa til skiptis upp hvor fyrir annan og eru leiðréttir af félaga sínum ef þeir lesa rangt orð eða hljóð. Reglulegt hrós er einnig hluti af aðferðinni og er gefið samhliða lestrinum til að hvetja nemendur áfram.
Hulda Karen Daníelsdóttir átti frumkvæði að innleiðingu PALS á Íslandi og segir hún rannsóknir benda til þess að flestir nemendur sem noti aðferðina sýni meiri framfarir í námi en þeir sem ekki nota hana.
Hulda Karen gefur grunnskólum í Breiðholti námskeiðin sem kennararnir sækja í námstækninni en skólarnir greiða sjálfir fyrir námsefnið sem notað er.
Hún segir PALS gagnast vel alls staðar en að Breiðholtið sé góður staður til að byrja á. „Ástæðan fyrir gjöfinni er fyrst og fremst sú að í grunnskólunum í Breiðholtinu stundar einstaklega fjölbreyttur nemendahópur nám og PALS, sem er raunprófuð aðferð, nýtist sérlega vel við þannig aðstæður,“ segir Hulda.