„Sögurnar eru erfiðari en þær íslensku. Það er augljóst að konur af erlendum uppruna hafa minna bakland og minni tengsl við stofnanir þannig að þær fá ekki sömu aðstoð og íslenskar konur,“ segir Brynja sem hefur rýnt í sögurnar. Hún segir þær ólíkar öðrum Metoo-sögum því erlendu konurnar upplifi einnig ofbeldið frá öðrum konum, þeim íslensku.
„Það eru nokkrar sögur af konum sem hafa unnið í heimahúsi og orðið fyrir aðkasti frá körlunum. Svo hafa konurnar þeirra, íslenskar konur, haft samband við þær og beitt þær andlegu og munnlegu ofbeldi.“

Helstu niðurstöður eru að alltof margir séu fullkomlega háðir vinnuveitanda sínum hvað varðar fæði, húsnæði og jafnvel dvalarleyfi. Brynja segir það gegnumgangandi í sögunum að valdastaða sé misnotuð og ekki síst hjá þeim sem eiga íslenskan maka.
„Þær komast ekki út, og inn í samfélagið og fjölskyldur styðja oft við mennina.“
Skoða þurfi lögin betur til að vernda þennan hóp.
„Það að dvalarleyfi sé ekki bundið maka. Eða þeir sem vinna ólöglega missi ekki nemendaleyfið ef það kemst upp.“