Manninum, sem er á fimmtugsaldri, er gert að sæta fangelsi í fimm mánuði skilorðsbundið. Fórnarlömbum sínum, sem kröfðust samanlagt 10,5 milljóna króna í bætur, skal hann greiða ýmist 300 eða 200 þúsund krónur. Samanlagt tvær milljónir. Þá er honum gert að greiða tæplega 1,5 milljón í sakarkostnað.
Ekki miklar bætur
Fanney Björk Frostadóttir, aðstoðarsaksóknari hjá héraðssaksóknara sem sótti málið, segir, spurð hvort þetta teljist ekki frekar vægar bætur að þetta sé svipað og hefur verið í öðrum hliðstæðum málum. Fanney Björk segir það ekki þýða að bætur mættu ekki vera hærri í slíkum málum, en það sé önnur umræða.Maðurinn var fastagestur í lauginni og nýtti sér aðstæður til að taka myndir og myndskeið á snjallsíma sinn. Þorbjörg Gunnarsdóttir, forstöðumaður Íþróttamiðstöðvarinnar á Þingeyri, sagði í samtali við Vísi að nýju þili hafi verið komið upp til að girða fyrir vafasama iðju sem þessa.

Þurftu að leita til sálfræðings vegna málsins
Karlmaðurinn játaði sök í málinu og féllst á bótarétt en taldi bótakröfur of háar. Í einu tilvika var um dóttur hans að ræða. Í dómsorði er vitnað til greinagerða þar sem fram kemur að gjörðir mannsins hafi valdið fórnarlömbum hans verulegu hugarangri.Jafnframt segir í dómsorði að einn brotaþoli hafi þekkt einn sakborninginn og hann vitað fullvel hversu gömul stúlkan var.
„Hann hafi verið nágranni brotaþola og faðir vinkvenna hennar. Brotaþoli hafi því oft eytt tíma sínum á heimili sakbornings og þekkt til hans og borið traust til hans. Þá er til þess vísað að brotaþola hafi reynst erfitt að rifja atvikið upp og ræða um það. Ljóst sé að brot sakbornings gagnvart brotaþola hafi valdið henni miska,“ segir í niðurstöðu dómsins.
Viðkomandi hafi sótt sérfræðiaðstoð hjá barnasálfræðingi vegna málsins.