Öldungadeildarþingmaðurinn Jeanine Áñez í Bólivíu hefur lýst sig réttmætan forseta landsins eftir að Evo Morales flúði til Mexíkó í kjölfar þess að hafa sagt af sér embættinu.
Þingmenn úr stuðningsliði Morales fordæma yfirlýsinguna og tóku ekki þátt í atkvæðagreiðslu um málið en Áñez segir skýrt samkvæmt stjórnarskrá að hún eigi að taka við keflinu uns boðað verði til nýrra kosninga. Hún tók við embætti forseta þingsins eftir röð afsagna annarra þingmanna.
Morales sjálfur hefur einnig fordæmt yfirlýsingu Anez sem hann kallar hægrisinnaðan valdaræningja.
Morales segist hafa þegið boð um hæli í Mexíkó þar sem hann hafi óttast um líf sitt í heimalandinu.
Hann segist hafa sagt af sér til að forðast blóðsúthellingar í landinu eftir víðtæk mótmæli við endurkjöri hans.

