Innlent

Ný reikni­vél gerir öllum kleift að reikna út kol­efnis­spor sitt

Eiður Þór Árnason skrifar
Reiknivélin gerir fólki kleift að bera kolefnisspor sitt saman við spor meðal Íslendings.
Reiknivélin gerir fólki kleift að bera kolefnisspor sitt saman við spor meðal Íslendings. Vísir/skjáskot
Ný reiknivél gerir einstaklingum nú kleift að reikna út kolefnisspor sitt á einfaldan og fljótlegan hátt. Reiknivélin sem er aðgengileg öllum að endurgjaldslausu á netinu tekur tillit til þátta eins og samgangna, matarvenja, húsnæðis og neyslu fólks til að reikna út kolefnisfótspor þeirra.

Eftir hafa sett umbeðnar upplýsingar inn í reiknivélina gefur hún upp kolefnisspor einstaklingsins í fjölda tonna koltvísýringsígilda á ári og býður fólki ráð til þess að reyna að draga úr kolefnisspori sínu. Reiknivélin gerir fólki jafnframt kleift að bera niðurstöður sínar saman við kolefnisspor meðal Íslendingsins.

Hægt að bera kolefnisspor saman við kröfur Parísarsamkomulagsins

Einnig ber reiknivélin niðurstöðurnar saman við það hversu lítið kolefnissporið þarf að vera til að ná markmiðum Parísarsamkomulagsins um að halda hnattrænni hlýnun árið 2100 innan við 1,5°C, miðað við hitastig fyrir daga iðnbyltingarinnar.

Reiknivélin er samstarfsverkefni Orkuveitu Reykjavíkur og Eflu verkfræðistofu. Í tilkynningu segir að markmiðið með útgáfu reiknivélarinnar sé að stuðla að vitundarvakningu um neyslumynstur fólks og benda á góð ráð sem hægt sé að nýta til að minnka kolefnisspor hvers og eins.

Reiknivélin setur niðurstöðurnar fram á myndrænan hátt.Vísir/skjáskot

Minnka þarf kolefnisspor Íslendinga gríðarlega til að ná markmiði

Neysludrifið kolefnisspor íbúa á Íslandi er um tólf tonn koltvísýringsígilda á ári en mætti ekki vera meira en fjögur tonn til að halda hnattrænni hlýnun innan 1,5°C markmiðs Parísarsamkomulagsins um aðgerðir gegn loftslagvánni, er fram kemur í umræddri tilkynningu.

Útreikningur reiknivélarinnar á kolefnisspori ferða, matar, húsnæðis og neyslu er sagður styðjast við vistferilsgreiningar sem sé stöðluð aðferð til að meta umhverfisáhrif þjónustu og vöru á öllum líftíma þeirra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×