Arnar Már Magnússon verður forstjóri hins nýja flugfélags en hann var á sínum tíma forsvarsmaður hjá WOW air.
„Vil óska vinum mínum hjá Play innilega til hamingju með þennan áfanga!“ segir Skúli á Facebook. WOW air varð sem kunnugt er gjaldþrota í mars á þessu ári.
Hann segist hlakka til að fara út í heim að leika og vísar þannig til nafnsins Play, sem vakið hefur mikla athygli.
„Ég dáist að þrautsegju þeirra að hafa komist svona langt og veit hversu mögnuð þau eru! Hlakka til að fara út í heim að leika!! Til lukku Arnar Magnusson Sveinn Ingi Steinþórsson Jónína Guðmundsdóttir Daníel Snæbjörnsson Sonja Arnórs og Co!! Gangi ykkur sem allra best!“
Vefsíðu ýtt úr vör
Að Play flugfélaginu stendur reynslumikið fólk úr flugbransanum; sem starfaði áður hjá WOW Air, Air Atlanta og útlenskum flugfélögum að því er fram kom í máli Arnars Más á blaðamannafundinum. Þau hafi lært af mistökum WOW og séu reynslunni ríkari. Play sé vel fjármagnað, 80 prósent fjármagnsins komi frá breskum fjárfestingarsjóði og hluti frá Íslenskum verðbréfum, og aðstandendur félagsins hafi hugsað vel um alla kostnaðarliði félagsins.
Þrátt fyrir að Play sé komið vel á veg er það ekki 100% tilbúið, eins og Arnar komst að orði. Enn eigi eftir að útvega flugrekstrarleyfi, en það sé á lokastigum. Bókunarvél Play sé einnig svo gott sem tilbúin.
Sem fyrr segir er búið að ýta vefsíðu flugfélagsins úr vör. Þar má nálgast nánari upplýsingar um Play; t.a.m. hvaða störf eru í boði. Skrái fólk sig á póstlista félagsins getur það jafnframt unnið einn af 1000 ókeypis flugmiðum, sem Play hyggst gefa.
Vísir var með beina útsendingu og textalýsingu frá fundinum í Perlunni í dag, sem nálgast má hér.