Arnar Björnsson fór yfir gang mála í leiknum í Stykkishólmi í gærkvöldi og má sjá umfjöllun hans hér fyrir neðan.
Perla Jóhannsdóttir gaf tóninn í byrjun. Leikurinn var jafn framan af, staðan 15-15 þegar þrjár og hálf mínúta var eftir af 1. leikhluta en KR skoraði 5 síðustu stigin og var yfir 20-15 að honum loknum. Snæfell jafnaði í 25-25 þegar fjórar mínútur voru búnar af öðrum fjórðungi en KR skoraði þá 9 stig í röð og eftir það var á brattann að sækja fyrir Snæfell.
Sanja Orazovic var stigahæst hjá KR, skoraði 24 stig, tók 8 fráköst og fiskaði 6 villur á Snæfellsliðið. Gunnhildur Gunnarsdóttir skoraði 16 stig fyrir Snæfell og Emese Vida 14 en hún að auki 17 fráköst. KR vann þriðja leikinn í röð, 81-57.
Landsliðskonan, Hildur Björg Kjartansdóttir, lenti í villuvandræðum og náði ekki að skora í fyrsta leiknum gegn sínum gömlu samherjum í Snæfelli. Hildur lék í 19 mínútur og var með fjórar villur og fjögur fráköst en ekkert stig.
KR og Valur eru með 10 stig en Valur á leik til góða í kvöld gegn Haukum í Schenkerhöllinni í Hafnarfirði. Haukar geta jafnað Reykjavíkurliðin með sigri í kvöld.
Hinir tveir leikir kvöldsins eru rimmu Keflavíkur og Grindavíkur og Skallagríms og Breiðabliks. Breiðablik og Grindavík hafa tapað öllum leikjunum. Leikur Skallagríms og Breiðabliks verður sýndur beint á íþróttarásum Sýnar. Leikirnir þrír byrja klukkan 19:15.
Fréttina má sjá hér fyrir neðan.