Jóhanna Elín Guðmundsdóttir og Dadó Fenrir Jasminuson úr SH náðu bæði sínu fyrsta EM lágmarki í morgun í undanrásum á Íslandsmeistaramótinu í 25 metra laug sem fer fram í Ásvallarlaug. Ingibjörg Kristín Jónsdóttir og Kristinn Þórarinsson náðu líka EM lágmarki í undanrásum í dag.
Íslandsmeistaramótið í 25 metra laug hófst í dag í Ásvallalaug í Hafnarfirði en það er í samstarfi við Sundfélag Hafnarfjarðar og Íþróttasamband fatlaðra.
Mótið í ár byrjaði með látum því Kristinn Þórarinsson úr ÍBR gerði sér lítið fyrir og bætti Íslandsmetið í 100 metra fjórsundi og náði hann í leiðinni lágmarki á EM í 25 metra laug sem fram fer í Glasgow í næsta mánuði. Kristinn synti á 53,85 sekúndum en gamla metið var 54,30 sekúndur og var í eigu Arnar Arnarsonar frá því 2006.
Ingibjörg Kristín Jónsdóttir úr SH náði líka lágmarki á EM í 25 metra laug sem fram fer í Glasgow í Skotlandi dagana 4. til 8. desember næstkomandi. Ingibjörg náði lágmarkinu í undanrásum í 50 metra skriðsundi þegar hún synti á tímanum 28,05 sekúndum en lágmarkið er 28,06 sekúndur.
Jóhanna Elín Guðmundsdóttir og Dadó Fenrir Jasminuson úr SH náðu bæði sínu fyrsta EM lágmarki í 50m skriðsundi í undanrásum. Jóhanna Elín synti á 25,43 sekúndum en lágmarkið er 25,53 sekúndur. Dadó Fenrir synti á 22,32 sekúndum en lágmarkið karlamegin er 22,47 sekúndur.
Þetta þýðir að nú eru komnir sjö íslenskir keppendur á mótið en það eru:
Anton Sveinn McKee
Snæfríður Sól Jórunnardóttir
Eygló Ósk Gústafsdóttir
Kristinn Þórarinsson
Ingibjörg Kristín Jónsdóttir
Jóhanna Elín Guðmundsdóttir
Dadó Fenrir Jasminuson
Kristinn sló 13 ára Íslandsmet Arnar og Dadó og Jóhanna Elín tryggðu sig inn á sitt fyrsta EM
Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
