Bréfið er frá V-R-E í Þýskalandi sem biður um skráningu í óljósum tengslum við evrópsk persónuverndarlög. Í smáa letrinu kemur í ljós að með því að svara er fyrirtækið skuldbundið til að greiða 711 evrur, nærri 100 þúsund krónur, árlega í þrjú ár. Í svari við fyrirspurn Fréttablaðsins segir V-R-E að fyrirtæki fái í staðinn skráningu á vefnum v-r-e.eu.

Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda, kannast við bréf af þessu tagi. „Þetta er augljóslega þjónusta sem fyrirtæki þurfa ekki á að halda og við ráðum félagsmönnum okkar eindregið frá því að þiggja þessi boð,“ segir hann.
Segir hann félagið ávallt tilbúið að ráðleggja fyrirtækjaeigendum sem eru í vafa um hvernig eigi að svara svona bréfum, en hæpið sé að gengið verði á eftir greiðslum, gangi fólk í gildruna og skrifi undir.