Loo Eng Wah, framkvæmdastjóri Iceland Igloo Village sem rekur ferðaþjónustu á jörðinni Leyni 2 í Rangárþingi ytra fyrir malasíska fjárfesta segir að hjólhýsi sem höfðu verið tengd við fráveitu í óleyfi á svæðinu hafi verið fjarlægð.
„Það voru gildrur og svo gátum við fjarlægt úrganginn. Þetta var ný leið til þess að hreinsa þessa kassa sem söfnuðu í sig. Nú erum við aftur farin að gera þetta á hefðbundin hátt,“ segir Loo.

„Hér stendur að við megum leggja hjólhýsum þarna,“ segir Loo og sýnir fréttamanni starfsleyfi.
Og leigja hjólhýsi út?
„Já.“
Sigrún Guðmundsdóttir framkvæmdastjóri Heilbrigðiseftirlits Suðurlands skrifar undir starfsleyfið.
Hún sagði í samtali við fréttastofu að leyfið væri aðeins fyrir hefðbundnu tjaldstæði en væri ekki fyrir útleigu á hjólhýsum eins og verið hefur á svæðinu.
Loo hefði verið gert það ljóst fyrir tíu dögum. Hann segist vera í góðri trú og sé með marga ráðgjafa eins og lögfræðistofuna Lex, Price Waterhous Coopers og verkfræðisstofuna Eflu sér til liðsinnis.
Telurðu þig hafa fylgt öllum reglum hérna á Íslandi?
„Já.“
Landeigendur kærðu rekstur og ólöglegar framkvæmdir Iceland Igloo Village til Sýslumannsins á Suðurlandi í dag.