„Það sem ég er hræddastur við þegar ég er að gera þessa þætti er að spyrja að einhverri spurningu sem er a, móðgandi fyrir viðmælandann eða b, að ég verði eitthvað twitter fóður þar sem ég yrði tekinn af lífi eins og þekkist í þessu samfélagi. Þannig að ég reyni að vanda mig ótrúlega í orðavali. Það er líka svolítið pirrandi að ég þurfi alltaf að vera á einhverri bremsu.“
Stefán Árni og Arnar Jónmundarson pródúsent á Stöð 2 eru mennirnir á bakvið þáttinn og ræddu þeir í innslaginu um eftirminnileg viðtöl, óþægilegar spurningar og erfitt klúður.
„Mestu mistökin, sem eru alveg hræðileg, þá erum við að taka viðtal við Heiðar Loga brimbrettadreng. Hann er semsagt nýbúinn að missa föður sinn sem var fíkill og búinn að berjast við fíkn í mörg ár. Við tókum upp viðtalið við hann og setjum það inn á drif, daginn eftir er bara drifið tæmt,“ segir Stefán Árni. Þar sem viðtalinu var hent þurftu þeir að fá Heiðar Loga aftur í viðtal til þess að tala um þessa erfiðu lífsreynslu.

„Við ætlum að fá Davíð Oddsson, það er minn drauma viðmælandi,“ segir Arnar.
Vala Grand, Valdimar Guðmundsson, Aníta Briem, ClubDub og Sunneva Einarsdóttir eru þeir viðmælendur sem fengu mest áhorf en þau eru aðeins nokkur af þeim áhugaverðu gestum sem Stefán Árni hefur fengið í þáttinn.
Alla þættina af Einkalífið má finna hér á Vísi og á Stöð 2 Maraþon. Innslagið í Ísland í dag má sjá í spilaranum hér fyrir neðan.