Þær hafa staðið kyrrsettar frá 12. mars, en núna var loksins komið að því að þær hreyfðust á ný. Vélin Mývatn, TF-ICN, ein sex MAX-véla félagsins sem staðsettar voru í Keflavík, fékk það hlutverk að verða fyrst í loftið en henni hefur aldrei verið flogið með farþega frá því hún kom úr verksmiðjunni fyrr á árinu.

-Þið viljið fá að taka þær í notkun?
„Alveg bara, eins og skot. Um leið og þær eru búnar að fara í gegnum þessar breytingar sem Boeing er að gera, - um leið og það er klárt, - þá er ekkert að vanbúnaði. Og ég get fullvissað alla um það að þetta verða öruggustu flugvélar sem hafa verið smíðaðar þegar þær fara síðan í loftið."

Meðan Mývatni er ekið í átt að flugtaksstöðu er verið að undirbúa næstu vél, Búlandstind, til brottfarar en henni fljúga flugstjórarnir Kári Kárason og Franz Ploder.

-Hversvegna þessi breyting?
„Það er bara út af leyfismálum og öðru slíku. Það eru kannski ekkert allir sem vilja fá vélarnar inn til sín og Frakkarnir eru þar á meðal. Kannski er það bara út af Airbus, - ég veit það ekki,“ svarar Þórarinn, sem jafnframt er flotastjóri MAX-véla Icelandair.
Þotan er komin á fulla ferð og brátt verðum við vitni að fyrsta flugtaki MAX-vélar Icelandair í sjö mánuði. Þetta er þó aðeins ferjuflug, háð ströngum skilyrðum, með flugmennina eina um borð, í því skyni að forða þeim í skjól frá íslenskum vetri en Icelandair gerir enn ráð fyrir að þær verði komnar í farþegaflug í janúar.
Flugið til Spánar, með millilendingu í Shannon á Írlandi, gekk að óskum, og lenti seinni vélin, Búlandstindur, á flugvellinum við borgina Lleida í Katalóníu klukkan 19.15 í kvöld að íslenskum tíma.
Fyrri vélin, Mývatn, lenti um tveimur tímum fyrr. Ásdís Ýr Pétursdóttir, upplýsingafulltrúi Icelandair, kvaðst hafa fengið þau skilaboð frá Þórarni flugstjóra að flugið hefði gengið mjög vel.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2: