„Það var aðeins sagt vitlaust frá því. Við fórum alls ekki í neina brúðkaupsferð til Frakklands,“ segir Davíð Þór og hlær. Davíð Þór og Þórunn Gréta Sigurðardóttir formaður Tónskáldafélags Íslands giftu sig á laugardaginn og gistu svo tvær nætur á Hótel Búðum eftir brúðkaupið. Nú eru þau komin aftur í vinnuna og hversdagsleikinn tekinn við á ný.
„Ég setti það á Facebook og af einhverjum ástæðum virðist Facebook hafa haldið að Hótel Búðir væru í Frakklandi. Það stendur á Facebook, Hótel Búðir í Reims, France. Mjög skrítið og blaðamaðurinn hefur ákveðið að ég væri á Hótel Búðum í Frakklandi eða bara ekki pælt meira í því.“

Giftu sig ekki hjá sýslumanni
Sögusagnir fóru á flug um helgina að parið hafi valið að gifta sig hjá sýslumanni en ekki í kirkju. Hann prestur og hún fyrrum messuþjónn og organisti í kirkju. Saga sem kom mörgum spánskt fyrir sjónir.„Það þykir mjög fyndið, sú saga er náttúrulega miklu betri. En nei það er alveg úr lausu lofti gripið, það er bara eitthvað sem einhverjum hefur þótt fyndið,“ svarar Davíð Þór aðspurður hvort þetta sé satt. Hann segir að Séra Hjalti Jón Sverrisson samstarfsmaður hans hafi gefið þau saman í Laugarneskirkju, þar sem Davíð Þór er prestur.
„Við erum búin að vera saman í 14 ár og eigum tvö börn svo það kom í sjálfum sér engum á óvart að við létum verða af því að gifta okkur. Að vissu leyti ætluðum við að vera löngu búin að því, það var einhvern vegin aldrei rétti tíminn til þess en við létum verða af því núna. Við buðum bara allra nánustu ættingjum í kaffiboð heima hjá okkur.“
„Eftir 14 ár er maður farinn að þekkjast nokkuð vel en það má segja náttúrulega að í þeirri stöðu sem við erum er bara ákveðið ábyrgðarleysi að vera ekki búin að þessu, bara svona gagnvart lögum og rétti.“Hjónin voru mjög ánægð með daginn sinn og hvernig þau ákváðu að fagna þessu.
„Við ákváðum að úr því að við vorum að fara að gera þetta, að gera þá svolítið úr því, nota þetta sem tilefni til þess að gera sér glaðan dag, fá fólkið sitt til sín.“