Skoðun

10 vondar fréttir

Ágúst Ólafur Ágústsson skrifar
Í fjárlagafrumvarpinu kemur pólitík ríkisstjórnarinnar fram. Sé kafað djúpt í fylgiskjölin kemur mjög áhugaverð mynd fram.

1. HÍ, HR, Listaháskólinn og HA fá nánast sömu raunupphæð og í fyrra. Hjá framhaldsskólum er beinlínis lækkun á heildarfjármagni milli ára. Eina stórsóknin í menntamálum virðist vera í yfirlýsingum ráðherrans.

2. Þrátt fyrir augljósa þörf hjá Landspítalanum vill ríkisstjórnin ná 1,2 milljörðum kr. í aðhaldi úr heilbrigðiskerfinu. Á meðan er ófremdarástand á bráðamóttökunni og 130 eldri borgarar „búa“ á spítalanum vegna skorts á úrræðum.

3. Viðbótarframlag til öryrkja er milljarður sem dugar ekki í að afnema krónu á móti krónu sem kostar um 10 milljarða kr. Enn eru öryrkjar látnir bíða eftir réttlætinu, sem Katrín Jakobsdóttir sagði í stjórnarandstöðu að þeir mættu alls ekki gera.

4. Endurgreiðsla vegna kvikmyndagerðar er lækkuð um tæp 30%. Framlög til Tækniþróunarsjóðs, Lýðheilsusjóðs, Jafnréttissjóðs og þróunarsamvinnu lækka.

5. Framlög til hjálpartækja eru lækkuð.

6. Framlög til almennrar lögreglu lækka. Færri lögreglumenn eru nú en fyrir 10 árum þrátt fyrir fimmföldun ferðamanna og íbúafjölgun á tímabilinu.

7. Aldraðir fá ekkert aukaframlag umfram það sem er vegna fjölgunar í þeirra hópi.

8. Veiðileyfagjöldin hafa lækkað um tæp 40% síðan þessi ríkisstjórn tók við völdum. Og núna er lækkun bankaskatts sett í forgang. Fjármagnstekjuskatturinn skal áfram vera lægstur á Íslandi af öllum Norðurlöndunum.

9. Umhverfismál fá aðeins 2% af fjárlögum. Þegar 98% fjárlaga fara í annað má velta fyrir sér hversu ofarlega umhverfismálin eru.

10. Þá er sérstök aðhaldskrafa á sjúkrahús, öldrunarstofnanir og skóla.

Að þessari upptalningu lokinni má spyrja hvort þetta sé það sem kjósendur kusu um í síðustu kosningum.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×