Það sem af er ári hafa 11 kvartanir borist Umhverfisstofnun vegna kísilverksmiðju PCC á Bakka. Kvartanirnar snúa að sýnilegum reyk frá verksmiðjunni, lyktarmengun og hávaða.
Í reglubundnu eftirliti Umhverfisstofnunarinnar í vor gerðu fulltrúar stofnunarinnar athugasemdir við frágang gáma, fullra af blautu kísilryki, sem geymdir voru utandyra. Í skýrslu eftirlitsins kemur fram að nokkurt magn af kísilryki hefði lekið úr gámunum í læk og sjó ásamt umhverfi fyrir neðan verksmiðjuna.
Óhappið hafi átt sér stað þegar kísilrykið hefði verið hreinsað upp eftir stíflu í reykhreinsivirki. Kísilryk er ekki skilgreint sem hættulegt umhverfinu en í miklu magni hefur það áhrif á umhverfið.
PCC hefur síðustu mánuði unnið að úrbótum og í vikunni var farin önnur eftirlitsferð Umhverfisstofnunar þar sem lagt var mat á framgang verkefnisins. Í svari frá Umhverfisstofnun við fyrirspurn Fréttablaðsins kemur fram að ekki sé tímabært að greina frá niðurstöðum eftirlitsins.
