Conor McGregor hefur verið kærður fyrir líkamsárás eftir að hafa kýlt mann á bar í apríl.
Fyrrum heimsmeistarinn í UFC var formlega kærður í dag og á að mæta fyrir dómi 11. október næstkomandi. Ariel Helwani hjá ESPN fékk þetta staðfest frá talsmanni McGregor.
Ef McGregor verður fundinn sekur þá er hámarksrefsingin sex mánuðir í fangelsi og/eða að hámarki um 1600 Bandaríkjadali í sekt.
Atvikið átti sér stað á bar í Dublin í byrjun apríl. McGregor kýldi mann á sextugsaldri en atvikið sést á myndabandsupptöku.
Í viðtali í ágúst sagðist McGregor sjá eftir þessu og að hegðun hans hafi verið óviðeigandi.
„Maðurinn átti skilið að njóta sín á barnum. Ég reyndi að bæta honum þetta upp en það skiptir ekki máli, það sem ég gerði var rangt,“ sagði McGregor í ágúst.
McGregor hefur ekki barist í UFC síðan hann tapaði fyrir Khabib Nurmagomedov í október á síðasta ári.
