Skoðun

Veruleiki Kúrda

Lenya Rún Anwar Faraj skrifar
Enn og aftur hafa Kúrdar verið sviknir eftir að Bandaríkin brutu bandalag milli ríkjanna tveggja.

Eftir að forseti Bandaríkjanna sannfærði Kúrda í Sýrlandi að öruggt væri að víkja úr varnarstöðum sem til þess voru fallnar að fæla Tyrklandsher í burtu frá landamærum norður Sýrlands og lofaði öryggisráðstöfunum í skiptum fyrir vik úr varnarstöðum, gaf hann þess í stað forseta Recep Tayyip Erdogan, forseta Tyrklands, grænt ljós til að ráðast á Kúrda.

Þessi atburðarás sem sett var af stað af Donald Trump var hvatvís, óheiðarleg og hættuleg. Nú mun þjóðernishreinsun í garð Kúrda í Sýrlandi hefjast sem stillir okkur upp við vegg og mun síðasta úrræðið líklegast verða myndun bandalags við Bashar-al Assad, forseta Sýrlands, sem Kúrdar vilja helst forðast vegna fyrri átaka.

Án kúrdískra hersveita hefðu Bandaríkin ekki getað sigrað ISIS og myndum við ganga svo langt að segja að við vorum lykilatriði í baráttunni. Ellefu þúsund kúrdískir hermenn hafa dáið í baráttunni gegn ISIS þar sem þau börðust við hlið Bandaríkjamanna, en í ótrúlegri og órökréttri stefnubreytingu, erum við yfirgefin af þeim og horfum fram á þjóðarmorð.

Dagurinn í dag er mikill sorgardagur meðal Kúrda þar sem við höfum vægast sagt, verið dæmd til dauða í Sýrlandi.

Stundum er ekki hægt að gera annað en að vekja athygli á atburðum sem eru að gerast í heiminum, en í dag bið ég ykkur um að fylgjast með. Kúrdar voru þöglir á meðan á Anfal þjóðarmorðinu stóð árin 1986-1989, en í dag erum við hávær og við látum í okkur heyra. Við tökum þessu ekki lengur og við ætlum að berjast á móti.

Við erum þreytt, við erum sár og við erum vonsvikin, en við ætlum samt að berjast.

Höfundur er Kúrdi og ritari Röskvu, samtaka félagshyggjufólks við Háskóla Íslands.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×