Þau sveitarfélög sem minnst eru og fá því hlutfallslega mest fyrir að sameinast öðrum sveitarfélögum samkvæmt tillögum Sigurðar Inga, eru hvað mest á móti þessum áformum. Telja mörg sveitarfélög það óskynsamlegt að þvinga sameiningu í gegn með þessum hætti. Benda mörg hver á að minni sveitarfélögin séu oftar en ekki betur rekin en þau stærri.

Svo virðist sem mikil andstaða sé innan Eyjafjarðar sem og vítt og breitt um Norðausturland. Þröstur Friðfinnsson, sveitarstjóri Grýtubakkahrepps, segir íbúatöluna einnig ekki rétt viðmið. „Við framtíðarskipulag sveitarfélaga verður að horfa til margra þátta og fráleitt að íbúatala ráði ein alfarið um þróun þeirra. Horfa ber til landfræðilegra þátta, sem og fjárhagslegrar getu til að veita íbúum þjónustu.“
Innan Alþingis er hins vegar líklegt að frumvarpið nái fram að ganga með nægum meirihluta. Miðflokkurinn mun vera á móti málinu. Þingmaðurinn Karl Gauti Hjaltason sagði í vor að virða ætti sjálfsákvörðunarrétt sveitarfélaganna. Vilji þyrfti að vera fyrir hendi. Innan VG og Sjálfstæðisflokksins verða einhverjir mótfallnir frumvarpinu án þess þó að það hafi áhrif á framgang þess. Atkvæði Viðreisnar og Samfylkingar munu því að öllum líkindum koma frumvarpinu í gegn.