Erlent

Ghani og Abdullah lýsa báðir yfir sigri

Atli Ísleifsson skrifar
Ashraf Ghani tók við embætti forseta Afganistans árið 2014.
Ashraf Ghani tók við embætti forseta Afganistans árið 2014. Getty
Höfuðandstæðingarnir í afgönsku forsetakosningunum, þeir Ashraf Ghani forseti og Abdullah Abdullah forsætisráðherra, hafa báðir lýst yfir sigri í forsetakosningunum sem fram fóru í Afganistan á laugardag.

„Við fengum flest atkvæði í kosningunum og það verður ekki þörf á annarri umferð,“ sagði Abdullah á fréttamannafundi.

Amrullah Saleh, varaforsetaefni Ghani, segir hins vegar að Ghani hafi fengið 60 til 70 prósent atkvæða í kosningunum.

Habib Rahman Nang, forseti landskjörstjórnar, segir að enginn frambjóðandi geti lýst yfir sigri fyrr en búið er að telja öll atkvæði. Það sé í verkahring landskjörstjórnar að tilkynna um sigurvegara.

Þrjár vikur

Kosningaþátttaka mældist einungis 25 prósent meðal þeirra sem höfðu skráð sig og hefur aldrei verið minni. Að minnsta kosti fimm manns létu lífið og áttatíu særðust í sprengjuárásum á kjörstöðum á laugardag.

Talning atkvæða mun taka tíma og er ekki búist við að tilkynnt verði um bráðabirgðaniðurstöðu fyrr en að þremur viknum liðnum.

Ghani og Abdullah öttu einnig kappi í forsetakosningunum 2014 þar sem þeir deildu um embættið í mánuði eftir kosningar. Varð niðurstaðan sú að Ghani tæki við embætti forseta en Abdullah yrði forsætisráðherra landsins.


Tengdar fréttir

Efast um trúverðugleika kosninganna

Þrátt fyrir að Talibanar hafi hótað árásum á kjörstaði og víðar vegna forsetakosninga í Afganistan, er útlit fyrir að ásakanir um svindl og misferli komi frekar niður á kosningunum.

Afganir kjósa sér forseta í skugga ofbeldis

Talibanar hótuðu kjósendum illum afleiðingum ef þeir tækju þátt í forsetakosningunum í dag. Þeir hafa staðið fyrir nokkrum minni árásum í dag en kjörsókn er sögð hafa verið lítil.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×