Jacob Ellemann-Jensen hefur verið kjörinn formaður stjórnmálaflokksins Venstre í Danmörku. Hinn nýi formaður segist vera dauðþreyttur á átökum sem geisað hafa á milli fylkinga innan flokksins.
Boðað var til formannskjös eftir að Lars Løkke Rasmussen sagði af sér formennsku í Venstre fyrir nokkrum vikum. Hann gegndi embætti forsætisráðherra Danmerkur á árunum 2009 til 2011 og aftur 2015 til 2019. Miklar deilur innan flokksins urðu til þess að Løkke Rasmussen sagði af sér.
Ellemann-Jensen var ráðherra umhverfis- og matvælamála í ríkisstjórn Løkke Rasmussen en hann er sonur Uffe Ellemann-Jensen, fyrrverandi utanríkisráðherra Danmerkur.
Í sigurræðu sagði hann að flokksmenn yrðu að láta af deilum sín á milli og sameinast yfir stefnumálum flokksins.
„Ég skal vera hreinskilinn. Ég er dauðþreyttur á stríðinu á milli fylkinganna og því andrúmslofti sem þessu fylgir. Bæði innan þingflokksins sem og innan flokksins,“ sagði Ellemann-Jensen.
Varaði hann við því að ef innanflokksátökum myndi ekki ljúka myndi flokkurinn liðast í sundur og eiga á hættu að missa stöðu sína sem helsti flokkurinn innan bláu blokkarinnar svokölluðu, óformlegu bandalagi hægri flokka í Danmörku.
Elleman-Jensen var einn í framboði og var hann einróma kjörinn. Í frétt DR segir meðal annars að hlátur hafi heyrst í salnum þegar spurt var hvort einhver ætlaði að bjóða sig fram gegn Elleman-Jensen.
Inger Støjberg var einnig kjörinn varaformaður en hún bar sigurorð af Ellen Trane Nørby með 577 atkvæðum gegn 206. Støjberg var fyrrverandi ráðherra innflytjendamála og hefur átt sæti á danska þinginu frá árinu 2001. Í ráðherratíð sinni þótti hún reka harða stefnu í innflytjendamálum.
