Hæstiréttur hefur staðfest úrskurð Landsréttar sem hafnaði kröfu Isavia um að fá úrskurð Héraðsdóms Reykjaness felldan úr gildi þess efnis Isavia yrði að afhenda bandaríska leigufélaginu ALC Airbus-þotu sem Isavia hafði kyrrsett gegn öllum skuldum flugfélagsins WOW air.
Eftir að Isavia hafði verið gert að afhenda farþegaþotuna var henni flogið af landi brott tveimur dögum síðar í júlí síðastliðnum. Landsréttur komst að þeirri niðurstöðu í ágúst síðastliðnum að Isavia hefði ekki lengur lögvarða hagsmuni af því að fá niðurstöðu héraðsdóms hnekkt úr því að ALC hafði fengið þotuna.
Hæstiréttur staðfesti úrskurð Landsréttar í dag auk þess sem að Isavia þarf að greiða ALC 500 þúsund krónur í kærumálskostnað.
